Fatasöfnun og Rauðakrossbúðir

Rauði krossinn á Íslandi tekur á móti fatnaði um allt land í þartil gerðum gámum.  Rauði krossinn úthlutar einnig fatnaði til einstaklinga sem á þurfa að halda auk þess að selja fatnað í verslunum sínum víðsvegar um landið á góðu verði.

Rauði krossinn úthlutar fatnaði til 1.500 einstaklinga á Íslandi á hverju ári en skjólstæðingar Rauða krossins erlendis njóta einnig góðs af fataverkefninu. 

Fatasöfnun Rauða krossins er eitt mikilvægasta fjáröflunarverkefni Rauða krossins á Íslandi. Afrakstur af söfnuninni fer til reksturs Hjálparsíma Rauða krossins 1717, hluti til verkefna deilda félagsins um land allt og hluti nýtist til hjálparstarfs erlendis.

Hvað verður um fötin þín?

Verslanir Rauða krossins gegna mikilvægu hlutverki í fjáröflun félagsins. Fyrsta búðin var opnuð árið 2000 á Hverfisgötu í Reykjavík en tveim árum síðar flutti hún starfsemina að Laugavegi 12 þar sem hún er enn. Verslanir á höfuðborgarsvæðinu eru fjórar. Tvær á Laugaveginum, ein í Mjóddinni og ein í Kringlunni.

 Einnig eru búðir á Akureyri, Húsavík, Borgarnesi, Eskifirði, Egilsstöðum, Stöðvarfirði og Hornafirði.

Á þriðja hundrað sjálfboðaliða starfa í búðunum og skila um 1.900 vinnustundum á ári. Reikna má með að framlag þeirra sé ekki undir 30 milljónum króna.

Fatasöfnun stendur og fellur með dyggum stuðningi Eimskipa – Flytjanda, Sorpu og þeirra hundruð sjálfboðaliða sem prjóna, sauma, flokka, pakka og standa vaktina í Rauðakrossbúðunum allan ársins hring.